Gengið hefur verið frá samkomulagi á milli Háskólans á Hólum og útgerðarfélagsins FISK Seafood ehf. á Sauðárkróki um nýtt húsnæði fyrir Fiskeldis- og fiskalíffræðideild skólans.

Háskólinn hefur verið rekinn með stuðningi FISK Seafood í húsnæði félagsins á Sauðárkróki en mun á næsta ári flytja í tæplega tvö þúsund fermetra húsnæði í nágrenni skólans í Hjaltadal.

Húsnæðið var áður í eigu FISK Seafood en hefur nú verið gefið skólanum ásamt fjárstyrk til þess að flytja búnað deildarinnar og koma honum fyrir í nýjum húsakynnum.

Aðstaðan sem FISK Seafood hefur gefið skólanum hýsti áður bleikjueldi Hólalax í Hjaltadal sem var í eigu FISK Seafood en hefur nú verið lagt af. Bindur félagið vonir við að þessi rúmgóðu húsakynni geti nýst skólanum um langa framtíð.

„Með þessu undirstrikar FISK Seafood vilja sinn til þess að styðja áfram við bakið á þeirri mikilvægu starfsemi sem háskólinn starfrækir á sviði rannsókna og kennslu,“ segir í tilkynningu.

FISK Seafood, sem er í eigu Kaupfélags Skagfirðinga, áformar umtalsverðar byggingarframkvæmdir vegna nýs hátæknifrystihúss og fiskvinnslu á athafnasvæði sínu við höfnina á Sauðárkróki. Á meðal mannvirkja sem þurfa að víkja er húsnæði sem skólinn hefur haft afnot af án endurgjalds í tæpa tvo áratugi.

Hólmfríður Sveinsdóttir, nýráðinn rektor Háskólans á Hólum:

„Það hefur auðvitað verið skólanum afar dýrmætt að hafa getað rekið starfsemi deildarinnar undir þessu þaki FISK Seafood á Háeyri í þennan langa tíma. Um mitt næsta ár verða þau þáttaskil að við flytjum deildina í eigið húsnæði í nágrenni skólans sem er mikilvægt skref í áttina að framtíðaráformum um byggingu á nýju kennslu- og rannsóknahúsnæði á Sauðárkróki fyrir starfsemi Fiskeldis- og fiskalíffræðideildarinnar.“

Friðbjörn Ásbjörnsson, framkvæmdastjóri FISK Seafood:

„Þetta er sóknarsinnað samkomulag fyrir báða aðila. Skólinn getur haldið áfram að byggja upp þessa mikilvægu deild án óvissu um húsnæðismál hennar á næstu árum og við höldum áfram að þróa aðstöðu okkar á Háeyrinni til móts við nýjar kröfur og nauðsynlega samkeppnishæfni. Með þessu framlagi okkar getum við áfram litið á okkur sem öflugan bakhjarl kennslu- og vísindastarfs Hólaskóla sem skiptir þjóðina alla miklu máli.“

Nýja húsnæði Háskólans á Hólum
Nýja húsnæði Háskólans á Hólum