„Þetta er bara eitthvað sem ég heyrði frá fólki sem þekkir til málsins,“ sagði Robert Wade, prófessor við London School of Economics í samtali við Viðskiptablaðið rétt í þessu.

Eins og vefur Viðskiptablaðsins greindi frá á þriðjudagskvöld skrifaði Wade grein í FT þar sem hann sagði núverandi ríkisstjórn eiga við vandamál að stríða og að sterkur orðrómur væri um stjórnarslit.

„Þetta er umtalað á meðal fólks,“ sagði Wade en minnir á að einungis sé um orðróm að ræða.

Sp. blaðamanns: Umtalað á meðal hverra?

„Ég vil ekkert segja til um það,“ sagði Wade.

Líkt og kom fram í Viðskiptablaðinu á miðvikudaginn sagðist Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar kannast ágætlega við Wade og hafa nokkrum sinnum hitt hann.

Aðspurður um tengsl sín við Samfylkinguna sagðist Wade ekki vilja tjá sig um það en bætti við, „auðvitað þarf formaður Samfylkingarinnar að neita þessu. Það þurfa allir að neita þessu og það er mjög skiljanlegt í ljósi aðstæðna,“ sagði Wade.

Að öðru leyti vildi hann ekki tjá sig um efnistök greinarinnar en aðspurður um hvort hann standi við hana sagðist hann gera það.