Tryggingamiðstöðin hf. (TM) hefur fengið styrkleikamat BBB hjá Standard & Poor?s (S&P). Er félagið með þessu jafnframt fyrsta íslenska tryggingafélagið sem fær styrkleikamat hjá alþjóðlegu matsfyrirtæki segir í frétt félagsins.

Í rökstuðningi fyrir mati sínu segir S&P meðal annars um TM: ?Matið endurspeglar fjárhagslegan styrk TM og sterka samkeppnisstöðu. Það sem veikir þessa stöðu er mikil áhætta á íslenskum tryggingamarkaði og í íslensku efnahagslífi almennt. Einnig er takmörkuð framlegð af vátryggingarekstri TM.?

Styrkleikamatið frá S&P styrkir stöðu TM mjög og hefur í för með sér að félagið getur tekið virkan þátt í alþjóðlegum tryggingamarkaði. Norska tryggingafélagið Nemi, sem er í eigu TM, er með sama styrkleikamat og TM hefur nú fengið. Nemi hefur á grundvelli þess náð umtalsverðum árangri á alþjóðlegum sjótryggingamarkaði. Stefnt er að aukinni samvinnu félaganna á þeim markaði.

?Matið undirstrikar fjárhagslegan styrk TM. Með því opnast tækifæri til að útvíkka bæði starfsemi og markaðssvæði félagsins. Þetta skiptir okkur miklu þar sem íslenski markaðurinn er ekki vaxtarmarkaður. Hér takast tryggingafélög á um sneiðar af köku sem stækkar hægt. Mat S&P gefur möguleika á góðri viðbót,? segir Óskar Magnússon forstjóri TM í tilkynningu félagsins.