Íslandsbanki hefur gefið út nýja skýrslu í tengslum við sjávarútvegssýninguna í Brussel og er henni dreift á sýningunni. Skýrslan er unnin af Greiningu og sjávarútvegsteymi Íslandsbanka og fjallar um sjávarútveginn í Bandaríkjunum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslandsbanka.

Í skýrslunni er sjávarútvegurinn skoðaður með það fyrir augum að gefa greinargóða mynd af framvindu, helstu áhrifaþáttum og viðskiptum þessa markaðs en Bandaríkin er fjórða stærsta fiskveiðiþjóð í heimi. Meðal þess sem kemur fram í skýrslunni er að síðastliðin 20 ár hefur heildarafli Bandaríkjanna að meðaltali verið um 4,3 milljónir tonna. Aflinn nam um 4,5 milljónum tonna á árinu 2013 og jókst um 5,6% frá árinu áður. Heildarverðmæti aflans hefur aukist stöðugt undanfarinn áratug og nam 5,5 milljörðum dollara á árinu 2013.