Sú fjármálakrísa sem nú gengur yfir, og er sú versta frá Kreppunni miklu, er ekki náttúrulögmál heldur er hér um mannleg mistök að ræða sem við eigum öll þátt í.

Þannig byrjar umfjöllum breska blaðsins The Guardian umfjöllun sína um fjármálakrísuna en Julia Finch, viðskiptaritstjóri The Guardian telur í dag upp 25 einstaklinga sem hún telur hvað mesta ábyrga fyrir krísunni.

Þar má meðal annars finna nafn Geirs H. Haarde, forsætisráðherra.

Geir okkar er þó ekki efstur á lista heldur vermir Alan Greenspan, fyrrverandi seðlabankastjóri Bandaríkjanna toppsæti listans en hann er sagður ábyrgur fyrir „ódýrum lánveitingum“ með því að halda stýrivöxtum í Bandaríkjunum of lágum of lengi sem ýtt hafi undir verðbólu, t.a.m. á húsnæðismarkaði.

Þá fær Greenspan einnig á sig pillur fyrir að hafa haft ofurtrú á hinum frjálsa markaði og skilið hann eftir eftirlitslausan.

Bill Clinton og George W. Bush, báðir fyrrverandi forsetar Bandaríkjanna eru einnig á listanum ásamt Íslandsvininum Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands.

Á listanum má einnig finna nöfn marga fyrrverandi bankastjóra bresku og bandarísku bankarisanna, Mervin King, bankastjóra Englandsbanka og Bandaríkjamenn eins og þeir leggja sig en Finch segir bandarískan almenning hafa skuldsett sig um of en beinir þó spjótum sínum einnig að Bretum.

Að lokum má einnig finna nöfn milljarðamæringanna George Soros og Warren Buffet, ríkasta manns heims að mati Forbes.

Sjá umfjöllun The Guardian.