Stærstu mistök sjálfstæðismanna sem tengjast bankakerfinu og hruni þess voru gerð við einkavæðingu bankanna fyrir rúmlega sex árum. Þetta sagði  Geir H. Haarde, fráfarandi formaður Sjálfstæðisflokksins, í ræðu sinni við upphaf landsfundar Sjálfstæðisflokksins í dag.

Hann sagði að með því að falla frá stefnumörkun um dreifða eignaraðild hefðu sjálfstæðismönnum orðið á mikil mistök.

„Ég ber mína ábyrgð á því að svona var búið um hnútana á sínum tíma og á þeim mistökum er rétt að biðjast afsökunar. Geri ég það hér með," sagði hann og fékk fyrir þau orð lófaklapp fundargesta.

„Sama er að segja um annað sem miður fór og var í okkar valdi og hefði mátt gera betur," sagði hann. „En ég get ekki beðist afsökunar á afglöpum eða lögbrotum fyrirferðarmikilla manna í bönkum eða atvinnulífi sem fóru offari með mjög skaðlegum afleiðingum."

Landsfundarfólk hyllti Geir með lófaklappi

Geir sagði að þegar eigendur bankanna gerðust umsvifamiklir í atvinnulífinu og eignatengsl milli viðskiptablokka hefðu orðið gríðarlega flókin og ógegnsæ hefði stöðugleika bankakerfisins verið ógnað. „Hefðum við sjálfstæðismenn haldið fast við okkar upphaflega markmið um dreifða eignaraðild eru líkur á því að bankarnir hefðu ekki verið jafn sókndjarfir og áhættusæknir og raunin varð."

Um tvö þúsund manns sitja landsfund Sjálfstæðisflokksins sem fram fer í Laugardagshöll. Geir bað undir lok ræðunnar Guð um að blessa Ísland. Síðan setti hann landsfundinn. Fundargestir risu þá upp og klöppuðu fyrir fráfarandi formanni sínum.