Kjararáð ætlar ekki að lækka laun æðstu ráðamanna en Geir H. Haarde, forsætisráðherra hafði farið þess á leit við ráðið að það lækkaði laun helstu ráðamanna landsins um 5-15%.

Í svarbréfi Kjararáðs til forsætisráðuneytisins kemur fram að ráðið telur sig ekki hafa lagaheimild til að taka ákvörðun um launalækkun með þeim hætti sem óskað var eftir.

Kjararáð segir að sér sé ljóst að hrun íslensku bankanna og hin alþjóðlega fjármálakreppa hafi haft og muni hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir allan almenning og ríkissjóð.

Þá telur ráðið líklegt að áhrifin á launaþróun verði veruleg. Ráðinu sé hins vegar ekki ætlað að vera stefnumótandi um kjaraþróun í landinu.

Geir H. Haarde, forsætisráðherra sagði á blaðamannafundi í morgun að ríkisstjórnin myndi leita einhliða lausna til að lækka laun ráðherra, þingmanna og jafnvel annarra hátt settra embættismanna. Undir þetta tók Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra.