Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, segir það ömulegt að hafa verið dæmdur sekur um einn lið af fjórum í Landsdómsmálinu. Hann var sakfelldur fyrir að halda ekki ríkisstjórnarfund eftir þjóðnýtingu Glitnis haustið 2008. Þetta segir hann smáatriði, formbrot. Hann ætlar að skoða það með lögfræðingum sínum að vísa dómsniðurstöðunni til Mannréttindadómsstóls Evrópu.

„Sá dómur er fáránlegur og aðeins meira en það, hann er sprenghlægilegur. Ég held að það sé verulega merkilegt að níu dómarar skulu láta sig hafa það að dæma slíkt forbrot. Allir forsætisráðherrar landsins hafa verið sekir um það sama. Það er verið er að sakfella mig fyrir það sem allir hinir hafa gert og ég sakfelldur fyrir hönd þeirra allra. Ég læt mig ekki muna um að taka það á mínar herðar,“ sagði hann á tröppunum í anddyri Þjóðmenningarhússins.

Hann telur málið hafa kostað 200 milljónir króna, en sig persónulega um 40 milljónir króna. Lögfræðingi Geirs, Andra Árnasyni, voru dæmdar 25 milljónir króna í málsvarnarlaun. Þau greiðast úr ríkissjóði.

Geir sagði jafnframt ljóst að andstæðingar sínir hafi laumað sér inn í dóminn.

„Ég lýsti því yfir að ég bæri fyllsta traust til Landsdóms. En nú er ljóst að meginhluti hans reis ekki undir því trausti. Pólitísk sjónarmið laumuðu sér inn í dóminn. Það er ömurlegt fyrir þau öll,“ sagði hann og kallaði málið sneypuför fyrir þá þingmenn sem vísuðu máli hans fyrir Landsdóm. „Nú þurfa þeir að gera upp við sig hvernig þeir ætli að taka ábyrgð á þessu.“