General Motors, sem nálgast þau tímamörk sem fyrirtækinu hafa verið sett til að endurskipuleggja reksturinn, mun leggja tvo dýra kosti fyrir bandaríska ríkið. Annaðhvort leggi ríkið fram milljarða dala til viðbótar til stuðnings fyrirtækinu, eða leggi fram fjármuni til að styðja það við að óska eftir gjaldþrotaskiptum.

Þetta hefur WSJ eftir fólki sem þekkir til innan GM og blaðið segir að þessir kostir muni setja stjórnvöld og Obama forseta í vanda. Ef neitað verði um aðstoð, til viðbótar við þá 13,4 milljarða sem þegar hefur verið lofað, muni risastórt og táknrænt iðnfyrirtæki verða gjaldþrota.

Blaðið hefur eftir sumum sérfræðingum og þingmönnum að staðfesting á gjaldþroti sé öruggasta leiðin fyrir GM til að skera niður kostnað og verða rekstrarhæft á ný. En pólitískt gæti sú leið verið erfið í miðri kreppu þar sem milljónir manna hafi þegar misst vinnu sína.

Embættismenn í fjármálaráðuneytinu vestra telja að GM þurfi að minnsta kosti 5 milljarða dala til viðbótara til þess eins að komast í gegnum fyrsta ársfjórðung.