Gengi hlutabréfa Haga hefur hækkað um 1,06% frá því viðskipti hófust í Kauphöllinni í dag. Velta með hlutabréfin nemur nú 171 milljón króna. Fram kemur í uppgjöri Haga sem birt var í gær að hagnaður Haga á síðasta rekstrarári nam tæpum fjórum milljörðum króna. Það var milljarði meira en á fyrra rekstrarári.

Þá var frá því greint í gær að lagt væri til við aðalfund að hluthöfum verði greiddur út arður upp um 1,2 milljarða króna eða sem nemur 1,0 krónu á hlut. Til samanburðar fengu hluthafar greiddan 45 aura arð á hlut vegna afkomunnar rekstrarárið á undan. Það jafngilti 527 milljónum króna.