Eldsumbrot og kvikuhreyfing undir Bárðarbungu og hætta á gosi í Vatnajökli er líklegasta ástæða þess að gengi hlutabréfa Icelandair Group hefur fallið í dag, að mati sérfræðinga á markaði. Gengi hlutabréfa Icelandair Group hefur fallið um 3,8% í rúmlega 450 milljóna króna viðskiptum með hlutabréfin í Kauphöllinni í dag.

„Það er nærtækast að horfa til þess,“ að sögn Stefáns Brodda Guðjónssonar, sérfræðings hjá greiningardeild Arion banka.

„Ég myndi halda að það séu aðallega tíðindi af skjálftavirkni og kvikuhreyfingum undir Bárðarbungu sem valda því að Icelandair lækkar í verði. Við teljum þó að eldgosin bæði Eyjafjallajökli og Grímsvötnum hafi til lengri tíma haft jákvæð áhrif á bæði Icelandair og túrismann á Íslandi. Hvað verður nú er hins vegar ómögulegt að segja. Hér togast á annars vegar mögulegt tjón af völdum hamfara ef þær eiga sér stað og hins vegar það sviðsljós sem beinist að Íslandi. Þegar eldsumbrot eru annars vegar er líklega best að vera varfærinn í að spá.“

Engin merki um kviku

Fram kemur á vef Veðurstofunnar að öflug skjálftahrina, sem hófst 16. ágúst síðastliðinn, haldi áfram í Bárðarbungu. Ekki sjáist þó merki um að kvika sé á leið til yfirborðs. Rétt eftir klukkan hálf þrjú í nótt varð jarðskjálfti upp á 4 á Richter við Kistufella en það var sterkasti skjálftinn sem mælst hefur á svæðinu frá árinu 1996. Í ljósi endurmats jarðvísindamanna síðustu daga hafi Veðurstofan ákveðið að hækka viðvörunarstig fyrir flugmálayfirvöld og því Bárðarbunga merkt með appelsínugulu samkvæmt litakóða. Ekki séu merki um gos en ekki hægt að útiloka að virknin geti leitt til sprengigoss sem þá myndi valda jökulhlaupi og losun ösku út í andrúmsloftið.