Gengi hlutabréfa Icelandair Group hefur lækkað um 1,47% það sem af er degi í veltu upp á 78 milljónir króna. Gengi hlutabréfanna stendur nú í 16,8 krónum á hlut og hefur það ekki verið lægra síðan í enda nóvember í fyrra. Um áramótin síðustu stóð gengið í 18,2 krónum á hlut og hefur það því fallið um 7,69% síðan þá. Reyndar náði gengi hlutabréfanna hæst í 19,95 krónur á hlut í byrjun febrúar. Sé horft á gengisþróunina frá þeim punkti þá hefur gengið fallið um næstum 15,8% nokkuð jafnt og þétt síðan þá.

Talsvert hefur gengið á hjá Icelandair Group upp á síðkastið. Í þarsíðustu og síðustu viku þurfti að fella niður tugi flugferða vegna verkfallsaðgerða flugstjóra Icelandair. Lög voru svo sett á aðgerðirnar í síðustu viku. Í gær þurfti svo að fella niður um tíu ferðir og seinka öðrum vegna manneklu. Yfirvinnubann tók gildir hjá flugfreyjum í gærmorgun auk þess sem flugmenn vildu ekki aukavinnu.

Í morgun var svo greint frá því að ekki verði af beinu áætlunarflugi Icelandair til Pétursborgar í Rússlandi í næsta mánuði. Fljúga átti tvisvar í viku. Ferðir í júlí og ágúst eru enn á áætlun.