Gengi hlutabréfa fasteignafélagsins Regins hækkaði um 2,17% í rétt rúmlega 100 milljóna króna veltu í Kauphöllinni í dag. Þetta var mesta hækkun dagsins og næst mesta veltan á hlutabréfamarkaði. Greint var frá því í gærkvöldi að forsvarsmenn Regins hafi undirritað samkomulag um kaup á félaginu Klasa fasteignum fyrir tæpa 8,3 milljarða króna.

Á sama tíma hækkaði gengi hlutabréfa stoðtækjaframleiðandans Össurar um 1,87% og Eimskips um 1,51%.

Á móti lækkaði gengi bréfa Vodafone um 0,99%, VÍS um 0,72%, Icelandair Group um 0,63% og Haga um 0,14%.

Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,05% og endaði hún í 1.162 stigum. Heildarvelta með hlutabréf nam 360,6 milljónum króna. Þar af nam velta með hlutabréf Icelandair Group 178 milljónum króna og var það mesta veltan á markaðnum.