Gengi hlutabréfa TM hækkaði um 1,64% í Kauphöllinni í dag í 125 milljóna króna veltu. Gengi bréfa félagsins endaði í 31 krónu á hlut sem er nálægt hæsta gengi. Það náði hæst 31,4 krónum á hlut í ágúst síðastliðnum.

Á sama tíma hækkaði gengi bréfa Haga um 1,23% í 70 milljóna króna veltu með hlutabréf félagsins í Kauphöllinni í dag. Gengi bréfa félagsins stóð í 36,9 krónum á hlut í lok dags sem er nálægt hæsta gengi þeirra.

Þá hækkaði gengi bréfa Icelandair Group um 0,95%, Marel um 0,41% og VÍS um 0,27%.

Á móti lækkaði gengi bréfa fasteignafélagsins Regins um 0,86% og Vodafone um 0,5%.

Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,7% og endaði hún í rétt rúmum 1.170 stigum. Heildarvelta með hlutabréf í Kauphöllinni nam 633,3 milljónum króna. Mest var veltan með hlutabréf Icelandair Group eða upp á 347 milljónir króna.