Gengi bréfa í Eimskipi hefur fallið um 6,05% í Kauphöll Íslands í dag. Velta með bréf félagsins nemur 254 milljónum króna. Ástæðuna má vafalítið rekja til birtingar uppgjörs fyrirtækisins.

Samkvæmt ársreikningi Eimskips sem birtur var í gærkvöldi dróst hagnaður fyrirtækisins saman um 1,9 milljónir evra á síðasta ári, eða um 295 milljónir króna. Hagnaður yfir árið nemur 10,8 milljónum evra en var 12,7 milljónir evra árið 2012.

Hagnaður á fjórða fjórðungi eykst um 175 þúsund evrur eða sem samsvarar 27 milljónum króna. Hagnaðurinn var 1,17 milljón evra á fjórða fjórðungi 2013. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 37,1 milljón evra á síðasta ári en var 36,2 milljónir árið á undan.