Rannsóknarnefnd Alþingis telur alla bankana hafa verið óeðlilega umsvifamikla með hlutabréf í sjálfum sér og þannig sent út röng skilaboð á markaðinn. Í umfjöllun um viðskipti Kaupþings með eigin bréf kemur fram að þau hafi verið til þess fallin að gefa ranga mynd af virði bréfa í bankanum. „Nýir hluthafar [...] keyptu hlut á of háu verði,“ segir orðrétt. Svipaða sögu er að segja af Glitni og Landsbankanum. Rannsóknarnefndin telur auk þess að yfirmenn bankanna hafi verið sér vel meðvitaðir um stöðu mála og reynt eftir atvikum að koma bréfum út með því að búa til viðskiptin sjálfir, þ.e. að lána fyrir þeim jafnvel þannig að öll áhættan væri á bönkunum en ekki lántakendunum.

Er í þessu sambandi m.a. vitnað til tölvubréfs Rósants Más Torfasonar, fjármálastjóra Glitnis á þeim tíma og nú framkvæmdastjóra áhættustýringar Íslandsbanka, þar sem segir að staðan sé orðin þung. Það er sent 2. september 2008. „Vil vekja athygli á því að staða bankans í eigin bréfum er orðin mjög þung og því skynsamlegt að nálgast nýja aðila með það í huga að koma gömlum bréfum í lóg. RMT.“

Lárus Welding svarar því til að það sé unnið að því að koma bréfunum út, m.a. til Salt Investment, félags Róberts Wessman, Þórðar Más Jóhannessonar, Sigurðar Bollasonar, Sunds og ónefndra aðila í sjávarútvegi. „Þetta þykir sýna að æðstu stjórnendur bankans hafi verið sér meðvitaðir um stöðu bankans í eigin bréfum og höfðu aðkomu að, eða voru upplýstir um, kaup viðskiptavina bankans á hlutabréfum af bankanum,“ segir í skýrslu Rannsóknarnefndar.

_____________________________

Ítarlega er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .