Það var nokkuð rólegt á íslenska hlutabréfamarkaðnum í dag en velta á aðalmarkaði Kauphallarinnar nam 2,2 milljörðum króna en til samanburðar var veltan að jafnaði um 4,3 milljarðar króna á dag á síðasta ári. Níu félög voru rauð og átta græn á markaðnum en gengi allra félaga sveiflaðist um minna en eitt prósent í viðskiptum dagsins, að undanskildu Icelandair.

Hlutabréfaverð Icelandair hækkaði um 3,5% í 481 milljón króna viðskiptum og er nú komið í 2,05 krónur. Gengi flugfélagsins hefur hækkað um 12,6% í ár og hefur nú ekki verið hærra síðan sumarið 2020. Flugfélagið Play hækkaði einnig um 0,4% á First North-markaðnum í dag, þó í einungis 9 milljóna króna veltu.

Það var hins vegar meira um að vera á skuldabréfamarkaðnum en alls nam veltan þar 9 milljörðum króna. Ávöxtunarkrafa í nær öllum skuldabréfaflokkum þar sem viðskipti áttu sér stað hækkaði um allt að 16 punkta. Hins vegar lækkaði krafa á verðtryggðum skuldabréfum Íbúðalánasjóðs í flokknum HFF150224 um 80 punkta í 2,7 milljarða króna viðskiptum.