Mikill vaxtamunur við útlönd mun áfram styðja við gengi krónunnar á næstunni, segir greiningardeild Íslandsbanka. Það má búast við frekari hækkun stýrivaxta af hálfu Seðlabankans til að slá á þensluna í efnahagslífinu.

Ef það verður af stóriðjuframkvæmdum á Norðurlandi mun það styðja við gengi krónunnar í þessari viku.

Þegar ólíkar forsendur um jafnvægisgengi krónunnar eru núvirtar kemur í ljós að vaxtamunurinn réttlætir jafnvel sterkari krónu en nú sést. Órói ríkir engu að síður á gjaldeyrismarkaði og væntingar eru um gengislækkun þegar horft er fram til næsta árs.

Geysilegt gengisflökt í síðustu viku afhjúpar taugaóstyrkan markað og reikna má með að flökt verði áfram mikið á næstu dögum, segir greiningardeildin.

Telja má líklegt að gengi krónunnar muni styrkjast eða standa í stað til skemmri tíma litið, en veikjast þegar horft er til lengri tíma svo sem fram á næsta ár, þótt frekari álversframkvæmdir, ef af verður, muni eflaust hafa áhrif á gengisþróun.