Stúlknasveitin Nylon hefur staðið í ströngu við tónleikahald undanfarna mánuði. Hjómsveitin kom smáskífunni "Losing a Friend" nýverið í 29. sæti breska sölulistans sem tekur mið af seldum eintökum í verslunum og seldu niðurhali.

Einar Bárðarson, stofnandi útgáfufélagsins Believer Music í Bretlandi, sem gefur smáskífu hljómsveitarinnar út kveðst hafa gert sér vonir um að skífan kæmist inn á topp 40 og fór salan því talsvert fram úr þeim vonum.

fimmtán þúsund eintökum smáskífunnar hefur verið dreift í verslanir og telur Einar að skífan verði brátt uppseld en hún seldist upp á fyrsta degi í London. Þá segir hann lagið ekki hafa fengið mikla spilun í útvarpi en því meiri í sjónvarpi.

Talsverða fjármuni þarf til að koma tónlistarmönnum á framfæri í Bretlandi sem er talinn erfiðasti tónlistarmarkaður heims ásamt Bandaríkjamarkaði. Einar vill ekki gefa upp hve háar fjárhæðir hafa verið lagðar í kynningu sveitarinnar í Bretlandi.

"Stóru bresku útgáfufyrirtæki leggja um það bil eina milljón punda (133 milljónir íslenskra króna) í svona verkefni, til þess að tónlistarmaðurinn eigi sér viðreisnar von. Þá skiptir engu máli hvort það er popp, rokk eða hvað annað. Það kostar bara þessa peninga að ná góðri stöðu á breska markaðinum," segir Einar.

"Við erum ekki að leggja svo mikla peninga í þetta og það má segja að við séum í árangurstengdri fjármögnun. Fyrsta skrefið var klárað með því að koma sér inn á breska listann af því að við vildum sjá hvort við ættum eitthvert erindi á þennan markað og markaðurinn er búinn að gefa okkur grænt ljós."

Tryggvi Jónsson, sem leiðir innlendan fjárfestahóp, tekur þátt í fjármögnun ævintýrisins en að auki koma erlendir fjárfestar að málinu. Aðspurður segir Einar að Baugur Group komi ekki nálægt fjármögnun verkefnisins.

Njóti breiðskífa Nylon nægilegra vinsælda í Bretlandi stefnir Beliver á að framleigja hljóðritunina til stærri útgáfufélaga á öðrum mörkuðum og segir Einar að helst sé horft til Japans- og Þýskalandsmarkaðar í þeim efnum.

Önnur smáskífa sveitarinnr verður gefin út í september og er frágangur á fyrstu breiðskífu hennar fyrir breskan markað á lokastigi en hún kemur út í október, að sögn Einars. Nylon-stúlkur eru í fríi frá tónleikahaldi sem stendur en eru staddar hérlendis við upptökur. Í haust munu stúlkurnar síðan halda í tónleikaferð með drengjasveitinni McFly.