Gengi breska pundsins hefur hækkað í morgun eftir að í ljós kom að Skotar hefðu hafnað sjálfstæði. Gengi pundsins hefur ekki verið hærra gagnvart evru í tvö ár og gagnvart dollara í tvær vikur. Gengið hafði lækkað talsvert í aðdraganda kosninganna.

Þá hafa hlutabréf í stóru skosku bönkunum, Royal Bank of Scotland og Lloyds, hækkað vegna tíðindanna.

Royal Bank of Scotland tilkynnti að bankinn muni ekki flytja höfuðstöðvar sínar til Englands. Slík áform hafi verið hluti af varaáætlun bankans ef Skotland hefði valið sjálfstæði. „Eftir úrslitin ganga viðskipti fyrir sig eins og venjulega fyrir alla okkar viðskiptavini,“ sagði í tilkynningu frá bankanum.