Gengi hlutabréfa Icelandair Group hefur verið á mikilli siglingu upp á síðkastið. Það hefur hækkað um 61,8% frá áramótum og er það mesta hækkunin á gengi hlutabréfa á þeim tíma í Kauphöllinni. Það stóð í 8,22 krónum á hlut á Gamlársdag en endaði í 13,45 krónum á hlut í dag. Tilkynnt var um sölu Framtakssjóðsins á um 5% hlut í flugrekstrarfélaginu í morgun og hækkaði gengið um 1,13%. Til samanburðar hefur gengi hlutabréfa BankNordik hækkað um 55,9% frá áramótum, hlutabréf Haga um 26,5% og bréf fasteignafélagsins Regins um 20,5%.

Rúm 400% hækkun á tæpum þremur árum

Gengi hlutabréfa Icelandair Group hefur ekki verið hærra síðan í október árið 2008 eða um það leyti þegar bankarnir voru að fara á hliðina fyrir fimm árum síðan. Gengið lækkaði ört eftir því sem leið á og var komið niður í 1,8 krónur á hlut ári síðar, þ.e. í október árið 2009. Á þeim tíma höfðu Íslandsbanki og fleiri lánardrottnar gengu að veðum helstu hluthafa Icelandair Group. Í kjölfarið var ráðist í fjárhagslega endurskipulagningu þar sem einblínt var á að einblína á kjarnarekstur félagsins.

Í tengslum við endurskipulagninguna kom Framtakssjóður Íslands inn í hluthafahóp Icelandair Group með kaupum á 1,2 milljörðum nýrra hluta á genginu 2,5 krónur á hlut. Kaupverðið nam því þremur milljörðum króna. Síðan þetta var hefur gengi hlutabréfa Icelandair Group því hækkað um næstum 440%. Framtakssjóðurinn hefur selt úr eignasafni sínu síðan þá og á eftir síðustu sölu enn 350 milljóna hluti í flugrekstrarfélaginu.