Skuldir heimilanna við bankakerfið jukust um tæplega tólf milljarða í síðasta mánuði, að því er kemur fram í Hálffimmfréttum frá greiningardeild Kaupþings. Heildarskuldir heimilanna við viðskiptabankana nema nú um 756 milljörðum króna samkvæmt talnaefni frá Seðlabanka Íslands.

Gengisbundin lán jukust um 5,6 milljarða milli mánuða, eða 6.6%. Er sú aukning hlutfallslega mest, og er í dag hlutfall gengistryggðra lána af heildarskuldum heimila við bankakerfið nú um 12%, á meðan verðtryggð lán nema ennþá tæplega þremur fjórðu útlána heimilanna. Aukning verðtryggðra lána nam um 6,2 milljörðum sem er 1,1% aukning.

Gífurleg aukning varð á verðtryggðum lánum árið eftir að bankarnir fóru í samkeppni á fasteignalánamarkaði, en síðan þá hefur dregið smám saman úr þeirri aukningu. Vöxtur gengisbundinna lána náði hins vegar hámarki í mars á þessu ári þegar aukningin var 166% milli ára, að því er kemur fram hjá Kaupþingi. Heildarvelta á húsnæðismarkaði í júní nam 28.7 milljörðum, og yfir 1.000 kaupsamningar voru þinglýstir.

Almennt séð er talið hagstæðara að taka gengistryggt lán þegar krónan er veik, til að tryggja að afborgunin lækki með sterkara gengi. Hins vegar er oft vöxtur í gengistryggðum lánum þegar líf er á hlutabréfamarkaði, og hugsanlegt er að góð ávöxtun og lífleg stemmning í Kauphöll íslands hvetji til lántöku í erlendri mynt þessi dægrin, þrátt fyrir afar sterka stöðu krónunnar.