Arion banki tapaði 2,6 milljörðum króna á fjórða ársfjórðungi í fyrra samanborið við 3,6 milljarða hagnað á sama tíma árið 2010. Heildarhagnaður ársins nam 11,1 milljarði króna í fyrra sem er 1,5 milljörðum krónum minna en árið á undan. Í uppgjöri bankans kemur fram að áætlaður kostnaður hans vegna endurreiknings á gengislánum kosti bankann 13,8 milljarða króna. Endurútreikningurinn er gjaldfærður á fjórða ársfjórðungi.

Í uppgjöri Arion banka kemur fram að hreinar rekstrartekjur bankans námu 33,3 milljörðum króna í fyrra samanborið við 35,6 milljarða árið 2010. Hreinar vaxtatekjur námu 23,4 milljörðum króna samanborið við 19,8 milljarða ári fyrr.

Afkoma af reglulegri starfsemi var 12,3 milljarðar króna og arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi um 10,8%. Arðsemi eigin fjár var 10,5% og eiginfjárhlutfallið 21,2% í lok árs. Til samanburðar gerir Fjármálaeftirlitið kröfu um 16% eiginfjárhlutfall.

Þá skilaði endurmat og söluhagnaður eigna bankans 6,6 milljarða króna virðisaukningum. Þar af er bókfærður 3,6 milljarða króna hagnaður Arion banka af sölunni á Högum.

Uppgjör Arion banka