Áhrifa af gengislánadómnum mun gæta að einhverju marki í einkaneyslu og fjárfestingum heimilanna og gæti haft áhrif á ákvörðun stýrivaxta Seðlabankans, að mati Greiningar Íslandsbanka.

Greiningin segir í Morgunkorni sínu í dag að þrátt fyrir að dómur Hæstaréttar kunni að hafa þau áhrif að auka eftirspurn í landinu eitthvað þá sé líklegt að áhrifin verði lítil. Reyndar er undirstrikað í Morgunkorninu að sé óvissa um það hversu víðtæk áhrifin af dómnum verði.

Í Morgunkorninu segir: „Talsverður slaki er í hagkerfinu sem lýsir sér einna best í miklu atvinnuleysi. Dómurinn kann eitthvað að draga úr þessum slaka. Og þó svo að verðbólgan um þessar mundir sé ekki knúin áfram af innlendri þenslu er sá vaxtahækkunarferill sem Seðlabankinn hefur gefið til kynna að sé framundan undir áhrifum þess hversu hratt verði undið ofan af ofangreindum slaka. Niðurstaða dómsins og hversu víðtæk áhrif hans verða getur haft áhrif þar á.“

Morgunkorn Greiningar Íslandsbanka