Innfluttar vörur hafa hækkað í verði um 7,1% frá áramótum en gengisvísitala krónunnar hefur hins vegar hækkað um 27% á sama tímabili, segir greiningardeild Glitnis.

?Ljóst virðist að áhrif gengislækkunar krónunnar eru ekki enn komin fram að fullu í verðlagi. Innfluttar vörur munu að líkindum hækka áfram í verði á næstu mánuðum og auka þannig verðbólguna í hagkerfinu. Ekki er þó að vænta þess að verðlag innfluttra vara hækki hlutfallslega jafn mikið og gengi krónunnar hefur lækkað þar sem ýmsir aðrir áhrifaþættir koma við sögu, svo sem skattar, álagning, launakostnaður og fleira," segir greiningardeildin.

Hún segir að enn sé mikil eftirspurn í hagkerfinu en hún muni minnka á næsta ári og þá gætu sumir gripið til þess ráðs að lækka álagningu sína.

?Í markaðsyfirliti okkar í nóvember síðastliðnum var birt mat á heildaráhrifum gengisbreytinga á verðlag og var niðurstaðan sú að um helmingur gengisbreytinga skilaði sér í breytingum á verði innfluttra vara að hálfu ári liðnu," segir greiningardeildin.