Gengisþróun krónu á 1. fjórðungi yfirstandandi árs sker sig úr ef hún er borin saman við sama tímabil síðustu ár. Krónan styrktist um 6,6% frá áramótum til loka mars í ár. Í fyrra veiktist krónan hins vegar um 5,7% á sama tímabili og árið 2011 nam veiking krónu 3,6%. Kemur þetta fram í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.

Krónan er nú á svipuðum slóðum og um miðjan september síðastliðinn, og er því gengisveikingin sem varð á síðasta fjórðungi ársins 2012 að fullu gengin til baka. Skýringar á ólíkri þróun krónu nú miðað við síðustu ár liggja að mati Greiningarinnar í aðgerðum Seðlabankans, betra jafnvægi á þjónustuviðskiptum yfir vetrartímann og líklega einnig á tilfærslu árstíðarsveiflunnar sem einkennt hefur krónuna síðustu árin.

Frá gamlaársdegi 2012 fram í miðjan marsmánuð seldi Seðlabankinn 42 milljónir evra fyrir krónur á gjaldeyrismarkaði. Auk þess gerði bankinn framvirkan samning við Landsbankann sem fól í sér að hann afhendir Landsbankanum u.þ.b. 35 milljónir evra gegn krónum á komandi mánuðum. Bein og óbein inngrip Seðlabanka á þessu tímabili nema því ríflega 77 milljónum evra, andvirði um þrettán milljarða króna.

Segir í Morgunkorninu að þessi breytta stefna Seðlabankans hafi haft mikið að segja um styrkingu krónunnar undanfarna mánuði. „Sá galli er þó á gjöf Njarðar að gjaldeyrisforði bankans er fenginn að láni, og því þarf hann á endanum að kaupa til baka þann gjaldeyri sem varið er í slíkar aðgerðir. Seðlabankastjóri sagði hins vegar á kynningarfundi eftir síðustu vaxtaákvörðun að bankinn horfði ekki endilega til þess að afla gjaldeyris að nýju í forðann á næstu mánuðum, heldur væri sjóndeildarhringurinn lengri.“

Annað atriði sem nefnt er í Morgunkorninu er að veruleg aukning hefur orðið á gjaldeyrisinnflæði vegna ferðamanna þennan veturinn miðað við fyrri ár. Má til að mynda sjá þá þróun í kortaveltutölum Seðlabankans. Á fyrstu tveimur mánuðum ársins var kortavelta útlendinga hér á landi 677 milljónum króna minni en kortavelta Íslendinga erlendis. Á sama tímabili í fyrra var munurinn hins vegar ríflega 3,3 milljarðar.