Gengisvísitala krónunnar fer sennilega undir 100 stig á næstu vikum að mati Greiningar Íslandsbanka. Gengi krónunnar er í sögulegu hámarki sínu um þessar mundir og því viðbúið að hún muni halda áfram að slá fyrri met.

Helsta ástæða þessa er að Seðlabankinn boðaði í Peningamálum 30. september að stýrivextir bankans verði bæði hærri og haldið lengur háum en fjármálamarkaðurinn hefur verið að vænta. Greiningardeildir viðskiptabankanna höfðu á undanförnum vikum og mánuðum fyrir útgáfu Peningamála verið að spá því að stýrivextir Seðlabankans yrðu hæstir 10,25 til 11% í þessari uppsveiflu. "Væntingar markaðsaðila um að stutt sé í að stýrivextir nái hámarki og muni fljótlega lækka á ný eru óraunsæjar og tefja fyrir miðlun peningastefnunnar um vaxtarófið," sagði Birgir Ísleifur Gunnarsson, fráfarandi formaður bankastjórnar, af tilefni útgáfu Peningamála.

Vegna þessa hefur Greining Íslandsbanka endurskoðað sína spá um hæstu stýrivexti í þessari uppsveiflu úr 11% í 12%. Vextir Seðlabankans eftir 75 punkta vaxtahækkun 30. september eru núna 10,25% og því ljóst samkvæmt spá bankans að vextir eiga enn eftir að hækka. Íslandsbanki telur ekki útilokað að stýrivextir Seðlabankans verði hærri en 12%.

Bæði Edda Rós Karlsdóttir, forstöðumaður Greiningardeildar Landsbankans og Ásgeir Jónsson hjá Greiningardeild KB banka sögðu vísitöluna alveg geta farið undir 100 stig á næstuni.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.