George W. Bush, Bandaríkjaforseti, segir stjórnvöld vestan hafs gera allt sem þau geta til að koma á stöðugleika í efnahagslífinu.

Bush sagði 700 milljarða Bandaríkjadala björgunarpakka stjórnvalda vera nægilega stóran til að gera sitt gagn, en það tæki tíma fyrir hann að virka.

Bush sagðist gera sér grein fyrir áhyggjum borgaranna af eftirlaunasparnaði og fjárfestingum sínum, en reyndi hughreysta fólk. „Við getum leyst vandamálin og munum gera það,“ sagði Bush á blaðamannafundi í Hvíta húsinu.

Talsmenn Hvíta hússins neituðu jafnframt sögusögnum um að til standi að loka mörkuðum í Bandaríkjunum meðan regluverk í kringum þá er endurskoðað.

BBC greindi frá.