„Það er alveg ljóst að fallið á rúblunni núna mun endanlega stöðva útflutning til Rússlands. Við sendum tiltölulega lítið þangað í nóvember og desember og þá einungis á fyrirtæki sem við treystum mjög vel,“ segir Teitur Gylfason, sölustjóri uppsjávarfisks Iceland Seafood, í samtali við Fréttablaðið .

Þar kemur fram að íslenskir fiskútflytjendur ætla að gera hlé á útflutningi til Rússlands vegna efnahagsástandsins þar í landi. Óvíst er hvort þeir fái greitt fyrir vörur sem eru þegar farnar úr landi.

„Við munum ekki flytja neitt meira út fyrr en í fyrsta lagi upp úr miðjum janúar. Við eigum tiltölulega lítið útistandandi þarna en svo er spurning hvað gerist eftir þennan svarta þriðjudag í Rússlandi,“ segir Teitur.