Stuðningsmenn fráfarandi meirihluta í Reykjavík hafa gert hróp að verðandi borgarstjóra, Ólafi F. Magnússyni, á borgarstjórnarfundi sem nú fer fram í Ráðhúsi Reykjavíkur. Dagur B. Eggertsson, fráfarandi borgarstjóri, kvaddi sér hljóðs á fundinum, eftir ítrekuð hróp, og bað fólk um að sýna stillingu.

Áhorfendapallarnir í Ráðhúsinu eru þéttsetnir og púuðu stuðningsmenn fráfarandi meirihluta þegar Ólafur setti fundinn korter yfir tólf. Þeir kölluðu einnig: "Út með  hann", "Okkur er misboðið", "Villi hættu við", "Okkar Reykjavík - ekkert rugl í Reykjavík" og fleira. Eftir dágóða stund frestaði Ólafur fundi og gekk úr salnum. Þar sást hvar hann fékk hvatningu frá sjálfstæðismönnum. Gekk hann inn aftur og setti fundinn að nýju.

Þegar Hanna Birna Kristjánsdóttir hafði verið kjörin forseti borgarstjórnar tók hún við fundarstjórn. Hún hótaði því ítrekað að rýma salinn ef áhorfendur sýndu ekki stillingu. Henni væri það skylt samkvæmt fundarsköpum.