*

þriðjudagur, 28. janúar 2020
Innlent 14. mars 2019 12:03

Gera milljónasamning við Teva

Controllant er í samningaviðræðum við ísraelska lyfjafyrirtækið Teva og gætu tekjur ársins numið hálfum milljarði.

Ritstjórn
Gísli Herjólfsson er framkvæmdastjóri, og einn stofnanda Controlant.
Aðsend mynd

Controlant, íslenskt félag sem framleiðir hitaskynjara fyrir vörur í flutningi, er við það að ljúka samningum við írsraelska lyfjafyrirtækið Teva i, sem Morgunblaðið hefur eftir Gísla Herjólfssyni framkvæmdastjóra og eins stofnanda félagsins, sé milljóna Bandaríkjadala virði.

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um fyrir ári fékk Controlant hálfan milljarð í nýtt hlutafé og var það með áætlanir um sexföldun veltunnar á næstu tveimur árum. Lausnum félagsins er ætlað að hjálpa fyrirtækjum að minnka sóun og koma í veg fyrir skemmdir á viðkvæmum vörum, til dæmis lyfjum og matvælum, í allri virðiskeðju fyrirtækja, bæði geymslu og í flutningi.

Heildartekjur Teva, sem er eitt stærsta lyfjafyrirtæki heims, námu 18,9 milljörðum dala á síðasta ári, eða sem nemur tæplega 2,3 milljörðum íslenskra króna. Með sammningnum yrði félagið annar lyfjaframleiðandinn sem semur við Controlant um rauntímayfirsýn yfir hitastig, og þar með gæði lyfjanna í virðiskeðjunni, en í haust samdi félagið við írska lyfjafyrirtækið Allergen.

Auk þess er Controlant með samning við AstraZeneca sem og eru sagðir í burðarliðnum samningum allra stærstu lyfjarisa í heimi, en sumir þeirra eru að hefja prófanir á vöru félagsins á næstu mánuðum.

Gísli segir um 70% tekna fyrirtækisins frá lyfjamarkaðnum, en restin frá matvælaiðnaðinum, og býst hann við að tekjur Controlant tvöfaldist í ár frá fyrra ári og verði yfir 500 milljonir króna. Líkt og Viðskiptablaðið sagði frá í haust námu tekjur félagsins árið 2017 165,2 milljónum króna, en þá var taprekstur upp á 324 milljónir króna á rekstrinum.

„Fólk er farið að sjá að það að taka upp svona lausn og minnka sóun úr 10% niður í 3% hugsanlega á stuttum tíma, getur skilað arðsemi sem talin er í tugum jafnvel hundruðum milljóna Bandaríkjadala á ári,“ segir Gísli en hingað til hefur verið notast við sírita sem tengdir eru við tölvu eftir flutninga lyfjanna, en nú verður hægt að fá öll gögn um hitastig í rauntíma.

„Það eru hátt í 10% afföll í lyfjageiranum í heiminum. Það eru alþjóðlegar reglugerðir sem segja til um að þú megir ekki flytja lyf á milli landa nema þú getir sýnt fram á að hitastigið hafi verið innan ákveðinna marka.“