Fjár­fest­inga­fé­lagið PAI Partners SAS gerði í dag nýtt yfir­tökutil­boð í hollenska drykkja­vöru­fram­leið­and­ann Refresco. Um er að ræða tilboð upp á 1,6 milljarða evra (19,75 evrur á hlut) eða um 200 milljarða íslenskra króna. Tilboðið er 14% hærra en yfirtökutilboð PAI Partners sem hafnað var í apríl síðastliðnum. Greint er frá tilboðinu í tilkynningu Refresco og í frétt Financial Times .

Refresco, sem er stærsti drykkjavöruframleiðandi Evrópu, sérhæfir sig í framleiðslu undir vörumerkjum í eigu annarra og áfyllingu og pökkun til smásölu á nokkrum af stærstu vörumerkjum í drykkjarframleiðslu í Evrópu og víðar. Rekstrartekjur félagsins námu 2,1 milljarði evra í fyrra og var hagnaður Refresco 81,5 milljónir.

Stoðir, áður FL Group, eru stærsti hluthafi Refresco og er fyrirtækið jafnframt eina eftirstandandi eign Stoða. Verði kauptilboð PAI Partners samþykkt fá Stoðir um 17,7 milljarða króna í sinn hlut.

Félögin S121 ehf. og S122 ehf. eiga samtals 50,15% hlut í Stoðum, en þessi félög eru í eigu Helgafells ehf. (sem er í eigu Bjargar Fen­ger, Kristínar Fen­ger Vermunds­dóttur og Ara Fen­ger), Esjuborgar ehf. (50% í eigu Jóhanns Arnars Þórarinssonar, forstjóra Foodco, og 50% í eigu Riverside Capital SARL, sem er í eigu Fortown Corp í eigu Örvars Kærnested fjárfestis)., Einir ehf. (í eigu Einars Arnar Ólafssonar, GGH ehf. (sem tengist Magnúsi Ármann, Ágústi Má Ármann og Bernhard Bogasyni) og Tryggingamiðstöðvarinnar ehf.

Gengi hlutabréfa í Refresco hækkuðu um 8,51% í kauphöllinni í Amsterdam í viðskiptum dagsins. Frá áramótum hefur gengi bréfa félagsins hækkað um 30%.