Fjármálaráðuneytið gerir ráð fyrir að þó nokkuð stór hluti erlendra ríkisborgara verði áfram hér á landi næstu misserin, jafnvel þótt þeir verði atvinnulausir.

Þetta kemur fram í vefriti ráðuneytsins.

Ráðuneytið bendir á að í þessu sambandi er vert að hafa í huga að framfærslukostnaður í Póllandi er mun lægri en hér á landi. Kaupmáttur atvinnuleysisbóta þar er þó líklega lakari en kaupmáttur grunnatvinnuleysisbóta hér á landi.

Það er því erfitt að segja til um það hve margir Pólverjar snúi aftur til Íslands fari þeir á annað borð til síns heima í atvinnuleit.

Annar áhrifavaldur á ákvörðun um búferlaflutning er íbúðaeign. Um fjórðungur erlendra hjóna og einstæðra foreldra á íbúð, en sama hlutfall fyrir Íslendinga er tvöfalt hærra. Sá hópur er talinn líklegri til að ílengjast segir í vefritinu.