Gera má ráð fyrir að vöxtur Kaupþings banka á næstu ársfjórðungum verði knúinn áfram af dótturfélögum hans, FIH Erhvervsbank í Danmörku og Singer & Friedlander í Bretlandi, en bæði þessi dótturfélög fjármagna sig sjálf. Þetta kemur fram í greinargerð bankans vegna ársfjórðungsuppgjörs hans.

Álag á skuldabréf Kaupþings banka á eftirmarkaði í Evrópu jókst töluvert á fyrsta ársfjórðungi. Þetta hafði nær engin áhrif á fjármögnunarkostnað bankans á fyrsta ársfjórðungi. "Kaupþing banki hefur unnið markvisst að því að auka fjármögnunarleiðir sínar og gaf á fyrsta ársfjórðungi út skuldabréf á tveimur nýjum mörkuðum þar sem bankinn hefur ekki verið útgefandi áður," segir í greinargerð bankans.

Endurfjármögnun Kaupþings banka á árinu 2006 nemur sem svarar til 1,3 milljörðum evra, að frátalinni endurfjármögnun dótturfélagsins FIH í Danmörku. Það sem af er ári hefur bankinn þegar aflað fjármagns sem nemur 1,8 milljörðum evra. Af helstu lántökum má nefna 500 milljóna evra sambankalán á Evrópumarkaði í mars og 500 milljóna dala einkaútgáfu (e. private placement) í Bandaríkjunum undir nýjum US 144A MTN lánaramma bankans í apríl. Auk þess gaf bankinn út skuldabréf að fjárhæð 43,5
milljarðar króna til fjármögnunar á íbúðalánum bankans á Íslandi. Skuldabréfin eru með Aaa lánshæfiseinkunn frá matsfyrirtækinu Moody's Investors Service, sem er hæsta mögulega
lánshæfismatseinkunn.