Í fjárhagsáætlun Reykjaneshafnar fyrir næsta ár, sem kynnt var á dögunum, er gert ráð fyrir að 59 milljóna króna hagnaður verði af rekstri hafnarinnar á næsta ári.

Aftur á móti er gert ráð fyrir 349 milljóna króna tapi árið 2017, 272 milljóna króna tapi árið 2018 og 199 milljóna tapi árið 2019. Á árunum 2005-2014 var samfellt tap af rekstri Reykjaneshafnar.

Þá var gert ráð fyrir tapi í fjárhagsáætlun hafnarinnar fyrir yfirstandandi ár. Ástæðan fyrir því að gert er ráð fyrir hagnaði á næsta ári virðist fyrst og fremst vera einsskiptis hækkun í tekjum, en gert er ráð fyrir að tekjur hafnarinnar verði 1.069 milljónir króna á næsta ári en 312 milljónir árið 2017.

Kröfuhafar Reykjaneshafnar hafa tvívegis veitt henni greiðslufrest á skuldbindingum sínum og stendur eigandi hafnarinnar, Reykjanesbær, í viðræðum við sína lánadrottna um niðurfellingu á hlutum skulda sinna.