Sérstök úttekt var gerð á netöryggi hjá öllum þeim fyrirtækjum sem teljast þjóðhagslega mikilvæg í kjölfar þess að erlendur tölvuþrjótur braust inn á vef Vodafone á dögunum. Í Fréttablaðinu í dag segir að í einhverjum tilvikum fundust gallar sem hafa verið lagfærðir eða unnið er að því að lagfæra. Viðbragðsáætlanir voru virkjaðar hjá fyrirtækjum sem teljast mikilvægir innviðir samfélagsins, t.d. fjarskiptafyrirtækjum, orkufyrirtækjum og bönkum.

Blaðið segir að hjá Íslandsbanka voru gerðar ráðstafanir til að tryggja að ekki væri hægt að nýta stolnu upplýsingarnar til að ná aðgangi að tölvukerfi bankans. Landsvirkjun gerði mat á því hvort grípa þyrfti til bráðaaðgerða og breytti lykilorðum allra starfsmanna fyrirtækisins. Hjá Orkuveitu Reykjavíkur fannst veikleiki við þessa yfirferð og er fyrirtækið langt komið með að bæta úr veikleikanum.

Allir stóru viðskiptabankarnir þrír, Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn, fara eftir kröfum gæðastaðalsins ISO 27001, þar sem gerðar eru kröfur um netöryggi. Hjá Landsbankanum er að auki starfandi fimm manna teymi sem ekki hefur annan starfa en að sinna netöryggi bankans. Hjá Íslandsbanka er málunum stýrt af öryggis nefnd bankans. Hjá Arion banka starfar hópur sérfræðinga sem fjallar meðal annars um netöryggis mál bankans. MP banki er ekki með sömu öryggisvottun og hinir viðskiptabankarnir, en netbanki MP banka er vistaður hjá vottuðu fyrirtæki. Bæði Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur eru með sömu ISO-vottun og bankarnir. Það sama á ekki við um HS Orku.