Búast má við launasprengju á vinnumarkaði í næstu kjarasamningum, að sögn Gylfa Arnbjörnssonar, forseta Alþýðusambands Íslands.

Hann segir að í forsendum fyrir kjarasamningum ASÍ, SA og aðila vinnumarkaðarins, sem gerðir voru fyrr á árinu, sé gert ráð fyrir því að gengi krónunnar styrkist fyrir lok næsta árs.

Í efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar sem kynnt var á dögunum er ekki gert ráð fyrir styrkingu. Gylfi sagði á fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í vikunni varla tækt að endurnýja samningana.

Fáir telji orðið að krónan muni styrkjast, þar á meðal Seðlabankinn sem geri orðið ráð fyrir því að kjarasamningarnir falli.

„Við munum ekki sætta okkur við veika krónu,“ sagði Gylfi og mælti með því að nýta gjaldeyrishöftin til að lækka vexti og styrkja gengið.