Fyllilega er mögulegt fyrir Íslendinga að taka einhliða upp evru, að því er fram kemur í nýrri skýrslu prófessoranna dr. Friðriks Más Baldurssonar og dr. Richards Portes, sem þeir gerðu fyrir Viðskiptaráð Íslands um alþjóðavæðingu íslenskra fjármálafyrirtækja í samstarfi við Frosta Ólafsson, hagfræðing ráðsins. Þeir mæla hins vegar ekki með því að smám saman verði tekin upp evra í efnahagslífinu hér, með því að alþjóðleg fyrirtæki og starfsmenn þeirra noti myntina, á meðan aðrir noti íslensku krónuna.

Í skýrslunni segir að stjórnvöld verði að íhuga alvarlega hvort taka eigi upp evru. "Evruvæðing -- þar sem stöðugur gjaldmiðill væri notaður, gefinn út af peningamálayfirvöldum utan Íslands og framboð hans takmarkaðist af greiðsluafgangi við útlönd -- væri framkvæmanleg fyrir Ísland," segir í skýrslunni. Í lok októbermánaðar var gjaldeyrisforði Seðlabankans 157,6 milljarðar króna, meira en nægur til að duga fyrir grunnpeningamagni í umferð; innlánum í Seðlabankanum og peningum í umferð hjá almenningi, sem samtals nema 91 milljarði króna. "Evruvæðing hefði kosti fram yfir gjaldeyrisráð eða fastgengisstefnu, en hvorug sú stefna hentaði Íslandi (sú seinni var reyndar afnumin fyrir skömmu). Í evruhagkerfi eru árásir spákaupmanna ekki lengur mögulegar, þannig að gjaldeyrisáhætta er engin, og innlendir vextir innihéldu ekki lengur það áhættuálag. Viðskiptakostnaður ætti að verða lægri og stefnumörkun gagnsærri. Notkun stöðugrar erlendrar myntar myndi í sjálfri sér styrkja "stöðugleikamenningu" í peningamálum og væntingum einkageirans," kemur fram í skýrslunni.

Nánar er fjalla um þetta mál í helgarblaði Viðskiptablaðsins.