Á dögunum birti Póst og fjarskiptastofnun skýrslu um íslenska fjarskiptamarkaðinn á fyrri helmingi ársins 2016. Af úttektinni og eldri gögnum stofnunarinnar að dæma hefur gagnamagnsnotkun Íslendinga aukist gríðarlega á stuttum tíma. Gagnamagnsnotkun á farsímaneti hefur þannig til að mynda aukist um rúm 690% frá fyrri hluta árs 2013 til fyrri hluta ársins 2016 eða úr tæpum 900.000 GB í tæp 7.200.000 GB.

Hlutdeild fjarskiptafyrirtækisins Nova á þessum markaði vekur sérstaka athygli engögn sýna að viðskiptavinir fyrirtækisins nýta sér tæp 65% af heildargagnamagni í gegnum farsímanet. Liv Bergþórsdóttir, forstjóri Nova, segir markaðshlutdeild fyrirtækisins hvað þetta varðar ekki koma á óvart, um sé að ræða þróun sem hafi átt sér stað yfir nokkuð langan tíma.

Allar spár gáfu til kynna að 3G samskiptatæknin myndi gjörbylta markaðnum

Liv segir að í upphafi hafi vissulega verið erfitt að spá fyrir um þróun markaðsins en eftir tilkomu 3G hafi allar spár bent til þess að gjörbylting yrði á þessum markaði.

„Allar spár og erlendir markaðir sýndu að tilkoma 3G og síðan þróunin yfir í 4G myndi koma til með að stórauka gagnamagnsnotkun. Reyndar hefur notkunin aukist umfram spár síðan við tókum 4G-kerfið í gagnið en við byrjuðum að bjóða viðskiptavinum okkar upp á 4G þjónustu árið 2013 og vorum því næstum ári á undan samkeppnisaðilum okkar, sem gaf okkur mikið forskot. Við byggðum upp mjög gott 4G kerfi sem gerir það að verkum að viðskiptavinir okkar hafa aðgang að öflugu háhraða neti. Það hefur skilað sér enda erum við núna með notkun sem er sambærilegt því sem mest gerist hjá löndum í kringum okkur. Ef litið er á gagnamagnsnotkunina þá eru við ekki að skera okkur neitt sérstaklega úr í samanburði við stærstu fjarskiptafyrirtækin á Norðurlöndunum. Við skerum okkur hins vegar úr ef þú berð okkur saman við Símann og Vodafone,“ segir Liv.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.