Breytingar hafa verið gerðar á rekstri gistiheimilis Hjálpræðishersins að Kirkjustræti og verður gistiheimilið því ekki opið yfir vetrartímann fyrir ferðamenn. Ákveðið hefur verið að opna gistiheimilið fyrir stúdenta yfir vetrartímann og verða herbergi leigð út til þeirra.

Á heimasíðu gistiheimilis hersins kemur fram að stúdentar frá öllum heimshornum sem hingað eru komnir til að stunda nám við Háskóla Íslands séu velkomnir.

„Þetta er okkar leið til að fá peninga inn,“ segir Trond Are Schelander, deildarritari Hjálpræðishersins í Reykjavik. Áður hefur komið fram að Hjálpræðisherinn ákvað að flytja hluta starfsemi sinnar í Mjóddina, þar á meðal nytjaverslun og unglinga- og ráðgjafastarfsemi.