Gistinætur hér á landi voru 8,8 milljónir talsins í fyrra, 77% fleiri en árið áður og 5,2% fleiri en árið 2019 og hafa aldrei verið fleiri. Gistinætur á hótelum voru 4,7 milljónir og 1,3 milljónir á gistiheimilum. Þetta kemur fram í nýbirtum tölum Hagstofunnar.

Gistinætur Íslendinga voru um fimmtungur heildarinnar eða 1,9 milljónir sem er 4% samdráttur milli ára en erlendar gistinætur vel yfir tvöfölduðust úr 3,1 milljón í 6,9.

Heildarfjöldinn í fyrra var 3,5% meiri en 2018 sem var metárið hingað til þegar gistinætur voru 8,5 milljónir.

Inni í tölum síðasta árs er áætlaður fjöldi utan hefðbundinna gistinótta á tímabilinu maí til desember sem nam 1,25 milljónum, en slíkt mat féll niður meðan á faraldrinum stóð.

Af þeim fjölda voru tæplega milljón gegn um AirBnB, 215 þúsund hjá vinum og ættingjum og 66 þúsund í húsbílum utan gjaldskyldra tjaldsvæða.