Samkvæmt nýjum tölum frá Seðlabankanum stækkaði gjaldeyrisforði bankans um 8%, sé leiðrétt með tilliti til gengisbreytinga. Hækkun forðans má hins vegar fyrst og fremst rekja til verðhækkana á góðmálmum, til að mynda gulli. Gjaldeyrisforðinn nemur nú 220 milljörðum króna og hefur aukist um 19% milli ára.

Í Hálf fimm-fréttum greiningardeildar Kaupþings segir að gjaldeyrisforða sé ætlað að styrkja möguleika viðkomandi seðlabanka á að geta haft áhrif á verðmyndum á gjaldeyrismörkuðum. „Þannig getur gjaldeyrisforðinn verið vörn gegn spákaupmennsku og raunar getur stærð hans ein og sér haft fælandi áhrif á fjárfesta sem ekki geta lagt í stríð við seðlabanka með sterkan gjaldeyrisforða nema með ærnum tilkostnaði og mikilli áhættu," segir greiningardeildin.