Gjaldeyrishöftin á Íslandi hafa stórskaðað íslenska hagkerfið. Ástæðan er einföld, erlendir fjárfestar sjá sér ekki hag í því að fjárfesta hér á landi og allir þeir sem eiga fjármagn, hvort sem er innlendir eða erlendir aðilar, bíða þessa að geta komist úr landi með fjármagn sitt.

Þetta segir Jón Daníelsson, hagfræðiprófessor við London School of Eceonomics, í pistli á vef Credit Writedowns þar sem hann fjallar um nýtilkomin gjaldeyrishöft á Kýpur og samanburðinn við Ísland.

Í pistlinum rekur Jón aðdragandann að setningu gjaldeyrishafta á Kýpur annars vegar og Íslandi hins vegar. Jón minnir á að höftin á Íslandi hafi aðeins átt að vera tímabundin, líkt og höftin á Kýpur, en þau séu enn í fullu gildi hálfum áratug eftir að þau voru sett á. Hann segir ólíklegt að höftunum verði aflétt hér á landi í bráð og rekur í framhaldinu skaðann sem þau hafa valdið.

Jón segir í pistli sínum að þeir sem ætli sér að koma fjármagni undan finni leiðir til þess, hvort sem þær eru löglegar eða ekki. Það leiði til þess að opinberir eftirlitsaðilar séu í stanslausum eltingaleik við fjármagnseigendur (Jón talar um cat-and-mouse leik) þar sem stjórnvöld séu alltaf skrefinu eftir á. Það leiði til þess að sífellt sé veri að herða á höftunum. Allt leiði þetta til aukinnar spillingar og rétt sé að efast um heiðarleika Seðlabankans í þessu hlutverki, hvort sem er í tilfelli Íslands eða Kýpur.

Þá segir Jón að fjármagnshöft gangi í bága við reglur Evrópusambandsins um frjálst flæði fjármagns á milli landa innan evrópska efnahagssvæðisins auk þess sem þau hefti um leið frjálsan flutning einstaklinga á milli landa sem sé ekki síður alvarlegri hlutur.

„Ef einhver getur ekki selt húsið sitt og notað fjármagnið til að kaupa sér hús erlendis er verið að hefta frelsi hans,“ skrifar Jón, í lauslegri þýðingu Viðskiptablaðsins. Þá segir Jón að það sé rétt að hafa áhyggjur af því að Evrópusambandið skuli vera tilbúið til að hverfa frá slíkum grundvallarreglum um eigið efnahagssvæði. Loks segir Jón að því lengur sem gjaldeyrishöft séu við lýði því erfiðara sé að aflétta þeim.

Sjá pistil Jóns í heild sinni hér.