Kerfélagið ehf. hefur hafið gjaldtöku við Kerið í Grímsnesi. Aðgangseyrir fyrir hvern ferðmann er 350 kr, 2 evrur eða 3 bandaríkjadalir. Gjaldfrjálst er fyrir börn 12 ára og yngri.

Svæðið hefur nú verið afgirt og merkt og upp er komin nestisaðstaða á svæðinu. Í fréttatilkynningu sem birt er á mbl.is frá Kerfélaginu kemur fram að gjaldtakan geri kleift að vernda viðkvæma náttúru svæðisins svo unnt sé að halda áfram að taka á móti ferðamönnum. Fyrst um sinn verður gjaldið innheimt af starfsmanni Kerfélagsins en reynslan verður látin skera úr um hvers konar fyrirkomulag gjaldtöku verði notað til lengri tíma.

Á árinu 2008, lokaði Kerfélagið fyrir aðgang hópferða að Kerinu. Þá höfðu stjórnvöld uppi fyrirheit að finna lausn á þeim vanda sem blasti við á ferðamannastöðum. Í tilkynningu Kerfélagsins segir að efndir þeirra fyrirheita hafi látið á sér standa í fimm ár. Ferðir hópferðabíla eru nú leyfðar á nýju en gegn gjaldi.

Eigendur Kerfélagsins eru Óskar Magnússon, Ásgeir Bolli Kristinsson, Jón Pálmason og Sigurður Gísli Pálmason. Hver um sig á 25% hlut í Kerfélaginu.