Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, segir hugmyndir um gjaldtöku landeiganda við Hraunfossa í raun á ís. „Það er ekkert að frétta af gjaldtöku þar,“ segir Kristín í samtali við Fréttablaðið , en landeigendur við Hraunfossa í Hvítársíðu ákváðu í byrjun mánaðarins að fresta gjaldtöku á svæðinu í nokkra daga, en til hafði staðið að hefja hana 1. júlí.

„Við erum búin að segja þeim að það sé ekki heimild fyrir þá til að gera þetta,“ segir Kristín en Umhverfisstofnun hafði hótað landeigendum dagsektum upp á allt að 500 þúsund krónur ef að gjaldtökunni á aðganginum að einkalandinu hefði orðið.

„[Við h]öfum sent þeim bréf með afstöðu stofnunarinnar og fundað með þeim. Það hefur ekkert verið haft frekar samband við okkur.“ Landeigendur hafa tilkynnt um að þeir hyggist ekki nýta styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til að stækka bílastæðið enda hafi þeir ekki haft frumkvæði né vitað um beiðni um styrkinn, enda þurfi þess ekki ef leyfi fengist til að rukka aðstöðugjald.