Nýskráningum einkahlutafélaga síðustu 12 mánuði, frá desember 2014 til nóvember 2015, hefur fjölgað um 11% í samanburði við 12 mánuði þar á undan. Alls voru 2.272 ný félög skráð á tímabilinu desember 2014 til nóvember 2015.

Hlutfallslega var mest fjölgun í félögum sem eiga í fasteignaviðskiptum, eða 52% fjölgun á 12 mánuðum. Nýskráningum i rekstri gististaða og veitingarekstri fjölgaði um 29% og framleiðslu um 25%. Nýskráningum í flutningum og geymslu fækkaði hlutfallslega mest, eða um 12%.

Gjaldþrotum fækkar um 24%

Gjaldþrot einkahlutafélaga síðustu 12 mánuði, frá desember 2014 til nóvember 2015, hafa dregist saman um 24% í samanburði við 12 mánuði þar á undan. Alls voru 611 fyrirtæki tekin til gjaldþrotaskipta á tímabilinu.

Hlutfallslega hefur gjaldþrotum í fjármála- og vátryggingastarfsemi fækkað mest, eða um 40% á síðustu 12 mánuðum, auk þess sem gjaldþrotum í bæði flutningum og geymslu og sérfræðilegri, vísindalegri og tæknilegri starfsemi hefur fækkað um 35% frá fyrri 12 mánuðum. Fasteignaviðskipti voru eini atvinnugreinabálkurinn þar sem gjaldþrotum fjölgaði á tímabilinu, um 8% borið saman við 12 mánuði þar á undan.