Á síðasta áratug jukust tekjur Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR) um 90% að nafnvirði, úr 13,3 milljörðum króna í tæpa 25,4 milljarða. Þar munar mestu um 104% aukningu í sölu á áfengi en sala á tóbaki jókst á sama tíma um tæp 70%. Rétt er að ítreka að hér er um tölur á nafnvirði að ræða, en til upplýsinga hækkaði vísitala neysluverðs um 67% á sama tímabili.

Viðskiptablaðið fór yfir ársreikninga ríkisfyrirtækisins á árunum 2001-2010 (bæði ár meðtalin) en ársreikningur fyrir árið 2011 liggur ekki fyrir.

Á sama tíma jukust rekstrargjöld ríkisfyrirtækisins um 130% að nafnvirði, úr tæpum 10,5 milljörðum króna í 24 milljarða króna. Þar munar mestu um aukna vörunotkun sem hefur hækkað um 133% á tímabilinu að nafnvirði. Þá hafa laun og launatengd gjöld hækkað um 123% og húsnæðiskostnaður um 142%.

Þá hefur svokallaður stjórnunar- og skrifstofukostnaður hækkað um 24% frá árinu 2002, eða frá því að hann var bókfærður sem slíkur. Þá hefur annar rekstrarkostnaður lækkað um 53% frá áriu 2002. Í ársreikningi ÁTVR árið 2004 er bókfærður kostnaður vegna markaðs- og dreifingarkostnaðar rúmar 128 milljónir króna. Frá þeim tíma hefur sami kostnaður hækkað um 58% að nafnvirði og nam árið 2010 rúmlega 203 milljónum króna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.