Greiðsluuppgjör ríkissjóðs fyrir fyrstu fimm mánuði ársins 2008 liggur nú fyrir.

Samkvæmt uppgjörinu er breyting á handbæru fé frá rekstri jákvæð um 29,9 milljarða króna innan ársins, sem er 2,7 milljörðum lakari útkoma heldur en á sama tíma í fyrra.

Tekjur reyndust um 6,9 milljörðum hærri en í fyrra á meðan að gjöldin hækka um 13,1 milljarð króna.

Á vef fjármálaráðuneytisins kemur fram að mesta hækkun gjalda á milli ára er á liðunum heilbrigðismál, 3,2 milljarðar króna eða 8,4% og til almannatrygginga- og velferðarmála 3,1 milljarður króna eða 9,3%.

Hlutfallslega er mest hækkun á liðnum varnarmál, en Ratsjárstofnun kemur inn sem ný stofnun undir þennan lið á þessu ári. Liðurinn Löggæsla, réttargæsla og öryggismál hækka um 17,2% eða 1,2 milljarða króna og vegur þar þyngst Landhelgissjóður vegna smíði varðskips með 850 milljóna króna hækkun á milli ára.

Húsnæðis-, skipulags og veitumál hækka um 21,3% milli ára og munar þar mestu um auknar fjárveitingar vegna leiguíbúða.

Hreinn lánsfjárjöfnuður er jákvæður um 27,5 milljarða króna, sem er 66,9 milljörðum hagstæðari útkoma en á sama tíma í fyrra.

Sjá nánar á vef fjármálaráðuneytisins.