Vinsældir bitcoin meðal eins elsta og alræmdasta notendahóps rafmyntarinnar hafa farið dalandi að undanförnu að því er kemur fram á Bloomberg en hópurinn sem um ræðir eru glæpamenn.

Aðrar rafmyntir sem leggja upp úr persónuvernd og netöryggi hafa verið að sækja í sig veðrið meðal glæpamanna á sama tíma og yfirvöld hafa verið að koma sér upp hugbúnaði til þess að fylgjast með fólki sem notar bitcoin.

Í nýlegri skýrslu frá Europol sem hefur vakið fólk til vitundar um þessar sviptingar kemur fram að myntir á borð við monero, ethereum og Zcash hafa verið að stækka í rafrænum undirheimum. Fjárkúgarar á netinu eru nú sagðir krefjast greiðslu í fyrrnefndum myntum í stað bitcoin og þá helst í miðlinum Monero.

Monero var stofnað árið 2014 og felur í sér öllu meiri persónuvernd heldur en bitcoin. Á meðan tækni bitcoin byggir á opinberum listum yfir hversu háar og til hvers millifærslur fara gerir tækni monero það ekki, heldur eru upphæðir og vefföng dulkóðaðar. Á síðustu mánuðum tveimur mánuðum 2017 fjórfaldaðist virði monero.