Glitnir átti að fá 120 milljóna króna þóknun ef Byr hefði verið skráður á skipulagðan verðbréfamarkað. Þetta kemur fram í samningi á milli Glitnis og Byrs sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum. Samningurinn fjallaði um ráðgjöf, sölutryggingu, fjármögnun og útboð fyrir Byr vegna 24 milljarða króna stofnfjárútboðs sem fór fram í desember 2007 og hugsanlega breytingu á rekstrarfyrirkomulagi sparisjóðsins í hlutafélag. Byr greiddi Glitni 240 milljónir króna fyrir umsjón með útboðinu.

Auk þess að veita ráðgjöf um hvort heppilegt væri að skrá hlutaféð á hlutabréfamarkað, ef breytingar yrðu á rekstrarformi sparisjóðsins, fengi bankinn að sitja einn um að vera umsjónaraðili og ráðgjafi við skráningu bréfa Byrs í Kauphöll. Um þá framkvæmd átti að semja sérstaklega.

Hófu samrunaviðræður korteri fyrir hrun

Stofnfjáreigendur í Byr samþykktu að breyta rekstrarformi sparisjóðsins úr sjálfseignarstofnun yfir í hlutafélagaform í ágúst 2008 og blessaði FME ákvörðunina. Skömmu síðar hófu stjórnir Byrs og Glitnis samrunaviðræður sem fóru út um þúfur þegar Glitnir var þjóðnýttur fáeinum dögum síðar.